Dreifikerfi í Vestmannaeyjum

Við dreifum rafmagni, heitu vatni og ferskvatni í Vestmannaeyjum

Rafveita

Rafmagnið kemur frá fastalandinu í gegnum tvo sæstrengi sem leiddir eru í aðveitustöð fyrirtækisins í Vestmannaeyjum og þaðan dreift um dreifikerfið í bænum. Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif  veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum.

Vara- og toppstöð rafveitunnar er staðsett í vélasal fyrirtækisins. Um er að ræða sjö Caterpillar vélar sem geta framleitt um 5 MW.

 

Hitaveita

Við rekum fjarvarmaveitu í Vestmannaeyjum. Í varmadælustöðinni eru fjórar sjódælur sem dæla 6-700 lítrum af 6-11°C heitum sjó í eimi sem kælir hann niður.  Orkan sem fæst með kælingunni flyst yfir í seinni varmaskiptinn sem hitar upp hitaveituvatnið. Í kyndistöðinni okkar er gufa framleidd með rafskautakatli og vatn veitunnar hitað upp með gufunni. Dreifikerfið er tvöfalt það er að segja framrás og bakrás. Heitu vatninu er dælt um framrásina til heimila og fyrirtækja, eftir notkun er vatninu dælt til baka og það hitað upp að nýju. Tvö dreifikerfi eru í bænum, efra dreifikerfi og neðra dreifikerfi. Allt heitt vatn er selt samkvæmt mælingu.

 

Vatnsveita

Vatn veitunnar er tekið úr tveimur vatnslindum í landi Syðstu Merkur á fastalandinu. Vatninu er dælt um neðansjávarvatnsleiðslur til Vestmannaeyja og þaðan um dreifikerfið. Tvö dreifikerfi eru í bænum, efra dreifikerfi og neðra dreifikerfi. Allt neysluvatn er selt í gegnum rennslismæla og með álagningu vatnsgjalda.