Dreifikerfi í Vestmannaeyjum

Við dreifum rafmagni, heitu vatni og ferskvatni í Vestmannaeyjum

 

Starfstöð Tangagötu 1

 

Vestmannaeyjar

HS Veitur hafa þjónustað íbúa Vestmannaeyja frá því að fyrirtækið sameinaðist Bæjarveitum Vestmannaeyja árið 2002. Í Vestmannaeyjum starfa að jafnaði um 10 einstaklingar á starfstöð okkar við Tangagötu sem hafa það veigamikla hlutverk að standa að rekstri og viðhaldi dreifikerfis HS Veitna í Vestmannaeyjum.

 

Rafveita

Rafmagnið kemur frá fastalandinu í gegnum tvo sæstrengi sem eru í eigu Landsnets. Strengirnir eru leiddir í aðveitustöð fyrirtækisins í Vestmannaeyjum og þaðan dreift um dreifikerfið í bænum. Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum. Vara- og toppstöð rafveitunnar er staðsett í vélasal fyrirtækisins. Um er að ræða sjö Caterpillar vélar sem geta framleitt um 5 MW.

Vatnsveita

Starfsemi vatnsveitu í Vestmannaeyjum til að fullnægja vatnsþörf samfélagsins er skylduverkefni bæjaryfirvalda skv. Lögum nr. 32/2004 um vatnsveitu Sveitarfélaga. Heimilt er að fela verkefnið félagi sem er í meirihluta eigu opinberra aðila og annast HS Veitur rekstur vatnsveitu í Eyjum á þeim grundvelli. Vatn veitunnar er tekið úr tveimur vatnslindum í landi Syðstu Merkur á fastalandinu. Vatninu er dælt um eina neðansjávarvatnsleiðslu til Vestmannaeyja og þaðan um dreifikerfið. Tvö dreifikerfi eru í bænum, efra dreifikerfi og neðra dreifikerfi. Allt neysluvatn er selt í gegnum rennslismæla og með álagningu vatnsgjalda.

Hitaveita

Hitaveitan í Vestmannaeyjum sker sig úr hvað varðar önnur þjónustusvæði HS Veitna að því leitinu til að það þarf að framleiða hvern einasta dropa af heitu vatni. Er því um svokallaða fjarvarmaveitu að ræða sem hefur þá þýðingu að heitavatnsframleiðslan er háð bæði köldu vatni og rafmagni eða eftir atvikum olíu sem kemur frá meginlandinu. Innviðir sem tengjast heitavatnsframleiðslu eru í eigu HS Veitna og felast þeir í varmadælustöð, rafskautakatli og olíukötlum. Olíukatlarnir eru eingöngu notaðir þegar rafmagn er af skornum skammti, þ.e. skerðingar eiga við á vegum Landsvirkjunar eða bilanir eru á strengjum Landsnets. Að öðru leiti er stuðst fyrst og fremst við varmadælustöðina og rafskautaketilinn við heitavatnsframleiðslu.

Varmadælustöðin var tekin í notkun árið 2018 og í henni eru fjórar sjóvarmadælur. Á hverjum klukkutíma er 450 l/sek (16.200 m3/klst.) dælt upp af um 8°C heitum sjó til orkuframleiðslunnar. Vinnslumiðill sjóvarmadælunnar er ammoníak sem fer í gegn um sjóvarmaskiptin. Í sjóvarmaskiptinum fer sjór um aðra hlið hans og ammoníak um hina. Vegna lágs suðumarks ammoníaks sýður ammoníakið í varmaskiptinum og breytist í ammoníaksgufu og sjórinn kælist. Ammoníaksgufan fer þaðan inn í skrúfupressu sem þjappar gasinu saman upp í rúm 30 bar og þá er hitinn á gasinu orðinn um 115°C. Ammoníakgasið fer þaðan í varmaskipta hitaveitunnar og hitar upp vatn hennar. Eftir það er ammoníakið orðið kaldur vökvi og fer síðan aftur í sjóvarmaskiptinn og hringrásin hefst aftur.

Frá varmadælustöð og kyndistöð er heitu vatni dreift til heimila og atvinnulífs í Vestmannaeyjum í gegnum lokað hringrásarkerfi. Heitu vatni er því skilað aftur í kerfið og það hitað upp aftur. Með því að nota fyrrgreinda tækni varmadælustöðvarinnar hefur tekist að lækka rafmagnsnotkun til hitaveitu í Eyjum um u.þ.b. 50% sem er mikils virði þegar litið er á þróun raforkuverðs og horfur í raforkumálum á Íslandi.