Dreifikerfi á Suðurnesjum

Við dreifum rafmagni, heitu vatni og ferskvatni á Suðurnesjum

 

Starfstöð / höfuðstöðvar Brekkustíg 36 Njarðvík

 

Við eigum og rekum rafmagnsdreifikerfi og hitaveitudreifikerfi á Suðurnesjum. Einnig annast HS Veitur dreifingu á ferskvatni í Reykjanesbæ og Garði.

 

Rafmagnsdreifing
Við dreifum raforku svo til eingöngu með jarðköplum, þannig að lítið ber á rafdreifikerfinu ef frá eru taldar dreifistöðvar og götuskápar. Þessi uppbygging lágmarkar áhrif veðurs á dreifinguna og veitir hæsta afhendingaröryggið. Við dreifum rafmagni á nokkrum spennuþrepum eða 33kV, 12kV og 400 voltum.

 

Hitaveitudreifing
Aðveitulagnir frá Svartsengi eru lagðar ofanjarðar og einangraðar með steinull og síðan varðar með álþynnum. Allar aðrar lagnir eru neðanjarðar.

Hitastig vatnsins frá orkuveri er með tvennum hætti. Vatn sem fer til Grindavíkur fer út um 83°C og er þá gert ráð fyrir að það sé um 80°C við bæjarmörk. Það vatn sem fer til dælustöðvar á Fitjum fer út frá orkuverum um 105°C til 120°C síðan er það blandað með bakrennslisvatni frá Ásbrú í dælustöð að Fitjum og sent út til notenda um 83°C. Almennt er reiknað með að notendur nýti varmann úr vatninu niður í 35°C til 40°C en síðan rennur vatnið til sjávar um holræsakerfi sveitarfélaganna. Dreifikerfin eru svokallað einfalt hitaveitukerfi. Tvöfalt hitaveitukerfi er á Ásbrú og skilar bakrennslið sér þaðan aftur í dælustöð. Einnig er tvöfalt kerfi í Steináshverfinu í Njarðvík.

 

Ferskvatnstaka í Gjá og víðar fyrir orkuverið er nokkuð mikil eða allt að 1.200 tonnum á klukkustund (330 lítrar á sekúndu) og vatnstaka vegna vatnsveitnanna er að meðaltali um 700 tonn á klukkustund (190 lítrar á sekúndu). Ekki er þó talin hætta á of mikilli vatnsnotkun, þar sem reiknað er með að meðalúrkoma sem fellur á 10 til 15 ferkílómetrum nægi til að fullnægja allri vatnsþörf hitaveitunnar. Til samanburðar má nefna, að Reykjanesskaginn í heild er um 580 ferkílómertrar.

 

Ferskvatnsdreifing

Við eigum og rekum dreifikerfi fyrir kalt vatn í Reykjanesbæ, hluta Suðurnesjabæjar (Garði). Að auki sjáum við um rekstur vatnsveitunnar á flugverndarsvæðinu. Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum fá afhent kalt vatn frá okkur en reka sín eigin dreifikerfi.

 

Aðalvatnstökusvæði okkar er í gjá í hrauninu í Lágum. Ferskt vatn flýtur ofan á jarðsjónum á þessum slóðum. Dælustöðin í Lágum er byggð yfir gjá sem fyllt var af grjóti og möl eftir að komið hafði verið fyrir í henni fimm stálrörum. Þrjár dælur sem hver um sig afkastar 100 lítrum á sekúndu eru í stöðinni. Vatnsþörfin í Reykjanesbæ er 140- 160 lítrar á sekúndu. Með aukinni vatnsþörf er hægt að bæta við dælum en megin stofnæðin er hönnuð fyrir hámarksrennsli uppá 400 lítra á sekúndu. Aðal miðlunarrými veitunnar er í Grænásgeymi, í Keflavík er einnig geymir og annar til vara.

 

Garður fær sitt vatn úr tveimur borholum sem staðsettar eru við Árnarétt og Skálareykjaveg, tveir miðlunartankar eru á kerfinu.

 

Hafnir fá sitt vatn úr tveimur borholum sem eru við þjóðvegin u.þ.b. 0,6 kílómetra austan við byggðina. Saltmagn í þessu vatni er hátt. Til að vinna bót á því er sérstakur búnaður sem síar salt úr neysluvatni, með því er málmtæring minnkuð og vatnið stenst reglugerð um neysluvatn.

 

Íbúar í sveitarfélaginu í Vogum fá sitt vatn úr borholu við Vogavík, unnið er að því að setja upp nýtt vatnstökusvæði fyrir Vogana.