Um vatnsveituna

Við dreifum vatni á Suðurnesjum og Vestmannaeyjum.

Við eigum og rekum dreifikerfi fyrir kalt vatn í Reykjanesbæ, hluta Suðurnesjabæjar (Garði) og í Vestmannaeyjum. Að auki sjáum við um rekstur vatnsveitunnar á flugverndarsvæðinu. Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum fá afhent kalt vatn frá okkur en reka sín eigin dreifikerfi.

 

Vatnsveita á Suðurnesjum

Aðalvatnstökusvæði okkar er í gjá í hrauninu í Lágum. Ferskt vatn flýtur ofan á jarðsjónum á þessum slóðum. Dælustöðin í Lágum er byggð yfir gjá sem fyllt var af grjóti og möl eftir að komið hafði verið fyrir í henni fimm stálrörum. Þrjár dælur sem hver um sig afkastar 100 lítrum á sekúndu eru í stöðinni. Vatnsþörfin í Reykjanesbæ er 140- 160 lítrar á sekúndu. Með aukinni vatnsþörf er hægt að bæta við dælum en megin stofnæðin er hönnuð fyrir hámarksrennsli uppá 400 lítra á sekúndu. Aðal miðlunarrými veitunnar er í Grænásgeymi, í Keflavík er einnig geymir og annar til vara.

 

Garður fær sitt vatn úr borholu sem staðsett er við Árnarétt og er einnig úr lögn sem tengd er gjá Lágavæði.

 

Hafnir fá sitt vatn úr tveimur borholum sem eru við þjóðvegin u.þ.b. 0,6 kílómetra austan við byggðina. Saltmagn í þessu vatni er hátt. Til að vinna bót á því var settur upp búnaður árið 2006 sem síar salt úr vatni. Með því er málmtæring minnkuð og vatnið stenst reglugerð um neysluvatn.

 

Íbúar í sveitarfélaginu í Vogum fá sitt vatn úr borholu við Vogavík, unnið er að því að setja upp nýtt vatnstökusvæði fyrir Vogana.

 

Vatnsveita í Vestmannaeyjum

Vatn til Eyja er tekið í landi Syðstu Markar undir Eyjafjöllum. Vatnið er leitt þaðan 22 kílómetra í dælustöð sem staðsett er á Landeyjasandi. Þaðan er því dælt til Eyja um eina 12,5 kílómetra langa neðansjávarvatnsleiðslu yfir í 5.000 m3 birgðatank sem staðsettur er við Strembugötu. Sjálfrennsli til Eyja um 23 til 30 lítrar á sekúndu en ef vatnsnotkun fer yfir það fara dælur í gang og fylla tankinn. Fyrsta neðansjávarvatnsleiðslan var lögð árið 1968, nr. 2 var lögð árið 1971, þriðja leiðslan lögð árið 2008. Neðansjávarvatnsleiðsla 1 & 2 eru ekki lengur í rekstri.

Gæði vatnsins og efnainnihald

Mörg lög og reglugerðir eru um vatnsveitur á Íslandi. Ferskvatn flokkast sem matvæli og ber vatnsveitum meðal annars að uppfylla matvælareglugerð og vera með sérstakt innra eftirlit og á þeim forsendum fá þær starfsleyfi.
Eftirlit með gæðum vatnsins er í höndum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, fyrir Suðurnes og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fyrir Vestamanneyjar. Þessir aðilar sjá um að taka reglulega sýni úr vatni.

 

Efnainnihald vatns á Suðurnesjum

Efnainnihald vatns í Vestmannaeyjum