Vatnsveita

HVERNIG ER SÖLUFYRIRKOMULAG Á FERSKVATNI?
Í Reykjanesbæ og Garði innheimta HS Veitur svokallað vatnsgjald. Vatnsgjald er lagt á og innheimt hjá þinglýstum eigendum fasteigna. Greiðsluseðlar eru ekki sendir út heldur birtir á rafrænan hátt í heimabönkum, þeir sem óska eftir að fá senda greiðsluseðla eða greiða með boðgreiðslum er bent á að hafa samband við þjónustuborð HS Veitna. Stórir notendur í Reykjanesbæ og Garði greiða einnig fyrir notkun samkvæmt rennslismæli. Í Vestmannaeyjum er einnig innheimt vatnsgjald hjá þinglýstum eigendum fasteigna en auk þess greiða allir notendur fyrir notkun samkvæmt rennslismæli.
HVERS VEGNA ER SÍRENNSLI Í KLÓSETTKASSANUM HJÁ MÉR?
Líklega þarf að skipta um stykki í klósettkassanaum sem stjórnar innrennslinu í hann. Slíkt er hægt að fá í verslunum með pípulagningavörur. Sírennsli í klósettkassa er leiðinlegt og er auk þess sóun á vatni. Þegar vatn rennur stöðugt er einhver staðar dæla í gangi til að halda uppi vatnsstreyminu og það hefur einnig í för með sér sóun á raforku.
GÆÐI VATNSINS, ER FYLGST MEÐ ÞVÍ?
Mörg lög og reglugerðir eru um vatnsveitur á Íslandi. Ferskvatn flokkast sem matvæli og ber vatnsveitum m.a. að uppfylla matvælareglugerð og vera með sérstakt innra eftirlit og á þeim forsendum fá þær starfsleyfi. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja (HES) fylgist með gæðum vatns á Suðurnesjum og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands (HSL) fylgist með gæðum vatns í Vestmannaeyjum.
HVERS VEGNA ER LÉLEGUR ÞRÝSTINGUR Á VATNINU?
Það stafar væntanlega af því að lagnir í húsinu eru orðnar gamlar og lélegar og trúlega er um galvanhúðaðar stállagnir að ræða. Ráðlagt er að endurnýja þær.
HVERS VEGNA ER VATNIÐ BRÚNT ÞEGAR ÉG SKRÚFA FRÁ?
Það stafar líklega af því að lagnir í húsinu er orðnar gamlar og lélegar og trúlega er um galvanhúðaðar stállagnir að ræða. Ráðlagt er að endurnýja þær. Ef inntak er einnig úr galvanhúðuðu stáli er ráðlagt að tala við okkur og óska eftir endurnýjun á inntaki um leið og framkvæmdir hefjast við endurnýjun á húskerfinu.