Vegna umræðu um breytingar á hitaveitu í Vestmannaeyjum

 

Nokkur umræða hefur verið um hækkun gjaldskrár og breytt rekstrarfyrirkomulag á hitaveitunni í Vestmannaeyjum og áhrif þess á notendur. Eins og fram hefur komið var nauðsynlegt að gera breytingarnar til að bregðast við erfiðleikum í rekstri hitaveitunnar í Eyjum vegna raunhækkunar á raforkukostnaði, bilana á sæstreng Landsnets og skerðinga í raforkuframleiðslu með tilheyrandi kostnaðarauka vegna olíukaupa. Markmiðið er að tryggja rekstrargrundvöll hitaveitunnar og reka áfram góða hitaveitu í Vestmanneyjum. Með breytingunni er nýja orkunýtna varmadælustöðin farin að stýra framrásarhita inná bæinn, líkt og hún var hönnuð til að gera, sem gerir heitavatnsframleiðsluna bæði hagkvæmari og umhverfisvænni. Þannig verður heitavatnsframleiðsla minna háð rafmagni og olíu en áður. Breytingin hefur þau áhrif að framrásarhitastigið verður eitthvað lægra þegar álag á hitaveituna er mikið.

 

Eðli málsins samkvæmt eru sumir notendur að finna fyrir áhrifum af breytingunni og af umræðunni að dæma er ljóst að sumir notendur finna meira fyrir þessu en aðrir. Við greiningu á hitastigi til notenda síðustu sjö daga kemur í ljós að þrátt fyrir breytinguna á framrásarhitanum eru notendur almennt að fá til sín nægilega heitt vatn til að halda góðum hita á húsum og neysluvatni. Eftir standa einhverjir notkunarstaðir sem ástæða er til að kanna betur og verður það gert á næstu dögum.

 

Á þessum árstíma, þegar kólnar í veðri, er algengt að notendur hitaveitna verði varir við að tíma taki að ná hita í húsin og ofnlokar eða annar búnaður standi á sér eftir litla notkun yfir sumarið. Einnig getur verið að stilla þurfi forhitara þannig að þeir skili nægjanlega heitu neysluvatni í blöndunartækin. HS Veitur skila heitu vatni að snjallmæli í hitaveitugrind viðskiptavina og á inntaki er síubúnaður sem getur stíflast og þurft að hreinsa af fagmanni. Allur búnaður fyrir aftan snjallmæli er í eigu húseigenda og virkni hans hefur áhrif á bæði hitastig ofnakerfis og neysluvatns. Ef sá búnaður af einhverjum ástæðum virkar ekki sem skyldi skilar hann ekki nægjanlega vel því hitastigi sem hitaveitan skilar inn í húsið.

 

Síðustu daga hafa HS Veitur verið í sambandi við flesta pípulagnameistara í Vestmannaeyjum til að meta stöðuna og hvetjum við þá viðskiptavini sem telja að vatnið sé ekki nægjanlega heitt til að hafa samband við pípulagnameistara til að yfirfara húskerfin. Höfum við óskað eftir því að þeir veiti okkur upplýsingar ef eitthvað er að þeim búnaði sem er í eigu HS Veitna og munum við kosta úrbætur á honum og hreinsun á síu við inntak sé þess þörf.

 

Við munum áfram fylgjast með stöðunni og hægt er að hafa samband við þjónustuver okkar í síma 422 5200 og í gegn um netfangið hsveitur@hsveitur.is.