Staða á veitukerfum HS Veitna í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og í Vogum þann 9. febrúar

Frá því eldgosið hófst í gærmorgun hafa fjöldi starfsmanna og verktaka unnið að því að koma veitukerfunum aftur í gang.


Svona er staðan núna:

 

Stofnlögn í köldu vatni bilaði í gærkvöldi og vatnslaust var á Ásbrú, Háaleitishlaði og við Keflavíkurflugvöll. Erfiðar aðstæður voru á staðnum, bæði veður og blautur jarðvegur sem tafði viðgerðir. Kalt vatn var komið á aftur um kl. 13:45. Gera má ráð fyrir að innan 2 klst. verði allir komnir með kalt vatn aftur.

 

Unnið er að því að tengja heitavatnslögnina frá Svartsengi til Fitja aftur eftir að hraunrennsli skemmdi hana. Vonir standa til að heitt vatn byrji að berast til Fitja um miðnætti í kvöld. Fyrstu húsin munu vonandi fá heitt vatn til sín upp úr miðnætti í nótt og gera má ráð fyrir að taki 1-2 sólarhringa að byggja upp þrýsting og koma heitu vatni á allt svæðið (Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar).

 

Eins og staðan er núna er álagið á rafdreifikerfinu undir þolmörkum. Það hefur vissulega aukist með þeirri rafkyndingu sem íbúar hafa þurft að grípa til. Mikilvægt er að íbúar haldi áfram að lágmarka rafmagnsnotkun. Í kvöld þegar fólk byrjar að elda er mikilvægt að slökkva á rafmagnsofnum rétt á meðan og einnig að rafbílaeigendur hlaði ekki heima fyrir heldur noti til þess hverfahleðslur og hraðhleðslur sem í boði eru á svæðinu.

 

Við viljum minna rafbíla eigendur á að hlaða ekki heima heldur nýta hverfahleðslur og hraðhleðslustöðvar sem í boði eru á svæðinu. Þegar búið er að gera við lögnina við Svartsengi mun heitt vatn byrja að berast í heitavatnstankana að Fitjum. Þaðan verður svo hleypt rólega inn á dreifikerfið inn á ákveðin svæði í einu. Er það gert til að vernda dreifikerfið, minnka líkur á lekum, loft tæma lagnirnar og byggja upp þrýsting á kerfinu. Gott er að íbúar hafi hitastilla lágt stillta og hækki ekki hitann fyrr en ofnar eða gólfhitakerfi byrja að hitna, og hækki síðan hitastilla í rólegheitunum í nokkrum þrepum

 

Meðfylgjandi er mynd af aðgerðum við kaldavatnslögnina á Ásbrú. Mikill leki var á lögninni og hefur viðgerð staðið yfir í alla nótt