Staða á hitaveitu og rafmagni í Grindavík

Vel hefur gengið síðustu daga að koma á hita og rafmagni í hús sem urðu rafmagns- og heitavatnslaus í þeim náttúruhamförum sem hafa riðið yfir Grindavík.

 

Staða hitaveitunnar er eftir okkar bestu upplýsingum þannig að af 1200 heimilum eru 3 hús heitavatnslaus vegna skemmda á dreifikerfinu. Hinsvegar virðast 54 hús ekki vera að nota heitt vatn þó þau séu að fá heitt vatn til sín. Ástæðan getur verið af ýmsum toga sem tengist fasteignunum sjálfum. Mun pípulagningasveit á vegum Almannavarna kanna aðstæður í þessum húsum á næstu dögum í samráði við húseigendur.

 

Hvað rafmagnið varðar er staðan sú að 5 hús eru rafmagnslaus vegna skemmda í dreifikerfinu. Hinsvegar virðast 31 hús ekki vera að nota rafmagn þó þau fái rafmagn til sín. Ástæður þess geta verið af ýmsum toga sem tengjast fasteignunum sjálfum. Mun rafvirkjasveit á vegum Almannavarna kanna aðstæður í þessum húsum á næstu dögum í samráði við húseigendur.

 

Umræddar upplýsingar eru byggðar á þeim gögnum sem fyrir liggja á þessum tíma en í ljósi aðstæðna er ekki hægt að tryggja fullkomna vissu stöðu einstakra húsa né fulla mynd af stöðunni í Grindavík.

 

Í ljósi þess að jarðsig og gliðnun halda áfram í Grindavík er ómögulegt að segja hvert framhaldið verður. Sérstaklega er varað við hættu sem skapast af heitu vatni á yfirborði eða í skurðum og vegna laskaðra raforkumannvirkja og strengja.

 

Dreifikerfi HS Veitna í Grindavík eru víða löskuð eftir stöðuga jarðskjálfta, jarðsig og gliðnun. Hér að ofan má sjá hitaveiturör sem hafði slitnað í sundur neðanjarðar í Grindavík