Rafmagnsleysi á Suðurnesjum 16. janúar 2023

Suðurnesjalína 1 er eina flutningslínan inná Suðurnesin og tengist hún jarðvarmavirkjunum HS Orku og dreifikerfi HS Veitna. Þegar bilun verður í flutningslínunni verður rafmagnslaust á svæðinu og jarðvarmavirkjanirnar detta út.

 

Rafmagnið fór af klukkan 15:18 með þeim afleiðingum að heimili og fyrirtæki urðu rafmagnslaus og heitavatnsframleiðsla í Svartsengi stöðvaðist og því varð heitavatnslaust hjá notendum.

 

Einnig hafði rafmagnsleysi mikil áhrif á þrýsting vatnsveitunnar.

 

Vinnuflokkar Landsnets og HS Veitna hófu strax bilanaleit og fljótlega kom í ljós hvað olli bilun. Viðgerð gekk vel og voru allir notendur komnir með rafmagn klukkan 18:15.

Fljótlega eftir að rafmagn kom á gat HS Orka hafið heitavatns framleiðslu í Svartsengi á ný og í framhaldi af því gátu HS Veitur farið í að byggja upp þrýsting á dreifikerfinu, en langan tíma getur tekið að ná eðlilegum hita og þrýstingi hjá notendum á ný.


Eftir svona stóra bilun geta komið upp ýmis vandamál hjá notendum. Viðskiptavinum er bent á að hafa samband við þjónustuver HS Veitna með því að senda tölvupóst á netfangið hsveitur@hsveitur.is, í gegnum netspjallið á heimasíðunni eða í síma 422 5200