Rafmagn komið á í vesturhluta Grindavíkur

Í dag hafa HS Veitur unnið að því í samvinnu við HS Orku og Almannavarnir að koma rafmagni og heitu vatni á ný í Grindavík eftir náttúruhamfarir gærdagsins.  

 

Stofnstrengur frá  Svartsengi til Grindavíkur sem fór að hluta til undir hraun reyndist nothæfur eftir prófanir og var spenna sett á strenginn klukkan 16:58.  Hluti Grindavíkur er því kominn með rafmagn en bilanir sem urðu við jarðhræringar í aðdraganda eldgossins valda því að ekki er mögulegt að koma rafmagni á allan bæinn sem stendur.  Hluti bæjarins er ekki aðgengilegur vegna þess hve svæðið er hættulegt og því óvíst hvenær hægt verður að ráðast í viðgerðir þar.

 

Í kvöld verður unnið að því að kanna hvort mögulegt sé að koma heitu vatni frá Svartsengi til Grindavíkur.  Gamla heitavatnslögnin er mikið skemmd en vonir standa til að hægt sé að nota nýja lögn sem búið var að leggja í jörðu en fór einnig undir hraunflæðið.  Hver árangurinn verður liggur ekki fyrir á þessari stundu því óvíst er hvort þetta sé í raun fær leið og hverju hún skilar þar sem ekki liggur fyrir hversu miklar skemmdir eru á dreifikerfi hitaveitunnar í bænum, sér í lagi í austurhluta bæjarins þar sem ástandið er talið vera verst.