Páll Erland með erindi á forvarnaráðstefnu um öryggisstjórnun á tímum náttúruhamfara

 

Páll Erland, forstjóri HS Veitna var með erindi á forvarnaráðstefnu VÍS í dag, fimmtudag, um öryggisstjórnun á tímum náttúruhamfara.
Fjallaði hann um starfsemi fyrirtækisins, sem sinnir veiturekstri á Reykjanesi, í Hafnarfirði, Garðabæ, á Árborgar svæðinu og í Vestmannaeyjum. Er fyrirtækið með skýra stefnu og er öryggismenning ein af lykil stoðum hennar.

 

Páll sagði frá því að á síðustu fjórum mánuðum hafi fjórar náttúruhamfarir dunið yfir á þjónustusvæði fyrirtækisins og hafi það vissulega haft áhrif á starfsemina, þá sérstaklega hvað varðar öryggismál þar sem starfsfólk fyrirtækisins hefur unnið við krefjandi aðstæður við að halda uppi þjónustu.

 

Tók hann sérstaklega fyrir öryggisstjórnun í tengslum við verkefni starfsfólks fyrirtækisins í Grindavík eftir að náttúruhamfarir hafi farið illa með innviði fyrirtækisins í bænum allt frá 10. nóvember sl. þegar mikil eyðilegging fór að láta á sér kræla vegna náttúruhamfara og í framhaldi af því röð eldgosa á svæðinu. Allt sé þetta viðfangsefni öryggismála þar sem aðstæður í bænum hafa verið þannig að þar hefur átt sér stað jarðsig, sprungumyndanir, eldgos, hraunflæði, skemmdir á veitukerfum auk þess sem langvarandi vetrartíð hefur sett strik í reikninginn og skapað viðbótar áhættu

 

Páll fjallaði um hvaða lykil áherslu fyrirtækið hefur haft í öryggismálum við þessar fordæmalausu aðstæður. Neyðarstjórn HS Veitna hafi verið virk frá því í október og er hún skipuð fagfólki þvert á fyrirtækið og þar séu aðstæður metnar og eru teknar ákvarðanir í hverju tilfelli fyrir sig. Einn af lykil þáttum í öryggisstjórnun er að staldra við, framkvæma áhættumat og meta og undirbúa hverja verklega framkvæmd sérstaklega. Síðast en ekki síst hafi verið lögð áhersla á að hugsa í lausnum og tók hann sem dæmi aðgerðir þar sem mögulegt er að leysa viðfangsefni með öðrum leiðum en að senda starfsfólk á hættulegustu staðina og áhersla lögð á að verk skulu unnin þannig að þau skili árangri og slysalausu starfsfólki í hús.

 

Páll lagði áherslu á mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við Almannavarnir, björgunarsveitir og lögregluna og aðra viðbragðsaðila sem hafa aðstoðað starfsfólk fyrirtækisins á vettvangi og tryggt öryggi þeirra. Sem dæmi sagði hann frá verkefnum sem voru unnin í samvinnu við sérsveit ríkislögreglustjóra í Grindavík á allra hættulegustu svæðunum.

 

Að lokum sagði hann starfsfólk HS Veitna hafa þurft að aðlaga sig að þessum aðstæðum í náttúruhamförum sem því miður virðast hvergi vera lokið og staðan sú að búist sé við að enn dragi til tíðinda á næstu dögum. Munu HS Veitur halda áfram að leggja áherslu á að halda einbeitingunni í öryggismálum. Það sé mikil áhersla á að sinna þjónustunni vel en í fyrsta sæti sé að koma heil heim.