Heitt vatn hætt að berast frá Svartsengi

Um hádegisbil í dag, þann 8. febrúar, fór hraunrennsli yfir hitaveituæðina frá Svartsengi til Fitja sem olli skemmdum á lögninni með þeim afleiðingum að heitt vatn hætti að berast um lögnina. Búið var að fylla á heitavatnstanka á Fitjum og áætlað að vatnsbirgðir endist fram á kvöld. Við þessar aðstæður næst þó ekki að halda fullum þrýstingi í þeim hverfum sem lengst eru frá dælustöð. Hefur það þær afleiðingar að á sumum svæðum er þegar orðið heitavatnslaust og búast má við að allt svæðið verði orðið heitavatnslaust um kl. 22. 

 

Unnið er að því að tengja nýja lögn sem búið var að leggja í jörðu á þessu svæði en gera má ráð fyrir að heitavatnslaust verði í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum í að minnsta kosti tvo sólarhringa. Vonast er til að fyrir lok morgundagsins (föstudag) náist að koma heitu vatni frá Svartsengi yfir nýju lögnina en síðan mun taka tíma að byggja upp þrýsting og koma heitu vatni til húsa á öllu svæðinu.

 

Er því viðbúið að gripið verði til rafkyndingar sem rafdreifikerfið er ekki hannað fyrir. Reynir því á samtakamátt íbúa að hámarka rafkyndingu við 2,5 kW á hverja íbúð og fara á sama tíma í raforkusparandi aðgerðir, sjá ábendingar hér.

 

Hættan af of miklu álagi á rafdreifikerfið, jafnvel frá einni íbúð, er sú að öll gatan eða jafnvel allt hverfið slái út með tilheyrandi hættu á bilunum í jarðstrengjum eða dreifistöðvum, sem þá gæti tekið langan tíma að laga.

 

Af gefnu tilefni er mikilvægt að upplýsa um að hættulegt er að tengja rafstöðvar inn á heimtaugar í aðaltöflu húseigna. Raftækjum skal frekar stinga beint í samband við slíkar rafstöðvar.