Hækkun á verðskrá hitaveitu í Vestmannaeyjum

Hitaveitan í Vestmannaeyjum sker sig úr hvað varðar önnur þjónustusvæði HS Veitna að því leitinu til að heitt vatn er framleitt í Vestmannaeyjum með rafmagni - og olíu þegar raforkan er skert.

 

Til að mæta erfiðleikum í rekstri voru gerðar breytingar á rekstri hitaveitunnar síðasta haust sem skiluðu tilætluðum árangri og hefðu að óbreyttu skilað því að reksturinn yrði í jafnvægi á nýju ári. Hækkun orkukostnaðar vegna raforkuskorts í landinu setur hins vegar stórt strik í reikninginn og veldur því að nauðsynlegt er að hækka verðið á heitu vatni til að mæta þeirri kostnaðarhækkun, enda nema orkukaup um 90% af framleiðslukostnaði hitaveitunnar í Vestmannaeyjum. Af þeim sökum mun verðskrá hitaveitu í Vestmannaeyjum hækka um 18% þann 1. janúar 2024. Búast má við að stjórnvöld muni hækka niðurgreiðslur til íbúa í Vestmannaeyjum um sömu prósentutölu.

 

HS Veitur hafa lengi bent á að rafkyntar hitaveitur búa við afar erfitt rekstrarumhverfi og kallað eftir lagfæringum á því þannig að notendur þeirra búi við sambærilegan kostnað af húshitun og aðrir. Eitt þessara atriða er að ríkið hækki niðurgreiðslu til notenda rafkyntra hitaveitna til jafns við þá sem nota beina rafhitun. Samkvæmt upplýsingum HS Veitna stefna stjórnvöld að hækkun niðurgreiðslna strax á nýju ári. Sú breyting mun þá skila sér beint til notenda hitaveitunnar í Vestmannaeyjum og ætti þannig hlífa þeim að miklu leyti við þeirri hækkun orkukostnaðar sem hitaveitan er að verða fyrir.