Breytingar á gjaldskrá og rekstri hitaveitu í Vestmannaeyjum

Síðustu misseri hafa verið áskoranir í rekstri hitaveitu í Vestmannaeyjum vegna raunhækkunar á raforkukostnaði og vegna bilana á sæstreng Landsnets og skerðinga í raforkuframleiðslu með tilheyrandi kostnaðaraukningu vegna olíukaupa.

 

HS Veitur hafa þrátt fyrir fyrrgreindar áskoranir tryggt viðskiptavinum fullt aðgengi að heitu vatni og ætla áfram að veita góða þjónustu en til að reksturinn beri sig er nauðsynlegt að gera breytingar á gjaldskrá og rekstri veitunnar. 

 

Gjaldskrá hitaveitunnar hækkar um 7,39% frá 1. september. Samhliða verða gerðar breytingar á heitavatnsframleiðslu í kyndistöðinni til að sporna við sívaxandi kostnaði vegna orkukaupa. Með breytingunni er ætlunin að láta hina orkunýtnu sjóvarmadælustöð stýra framrásarhita, líkt og hún var hönnuð til að gera, sem gerir heitavatnsframleiðsluna bæði hagkvæmari og umhverfisvænni. Þannig verður heitavatnsframleiðslan minna háð rafmagni og olíu en áður. Breytingin mun hafa þau áhrif að framrásarhitastig verður eitthvað lægra en áður þegar álag á hitaveitunni er mikið. Gera má ráð fyrir að hitastig frá kyndistöð lækki um 0-4°C frá því sem nú er eftir árstímum.

 

Til að lágmarka húshitunarkostnað er notendum bent á að yfirfara hitakerfi sinna fasteigna, ekki síst nú þegar haustið er að ganga í garð.