Skerðing raforku til fjarvarmaveitna

Eins og flestir hafa væntanlega heyrt þá hefur Landsvirkjun orðið að skerða ótrygga raforku og þá m.a. til fjarvarmaveitna vegna bágrar stöðu í miðlunarlónum, aðallega Þórisvatni. Í Vestmannaeyjum er vatnið hitað upp annarsvegar í varmadælustöðinni og hinsvegar í kyndistöðinni. HS Veitur hafa keypt forgangsorku fyrir varmadælustöðina en til að halda niðri kostnaði þá hefur verið keypt skerðanleg orka á kyndistöðina sem er þá skert núna. Náist að reka varmadælustöðina á fullum afköstum notar hún um 3 MW af raforku og sparar um leið tæp 6 MW þannig að til mikils er að vinna. Álagið á hitaveituna á þessum árstíma er hinsvegar meira en varmadælustöðin annar og því óhjákvæmilegt að nýta kyndistöðina einnig en hvað mikið ræðst af notkuninni í bænum. Varmadælustöðin er þannig rekin sem grunnafl og alltaf fullnýtt miðað við stöðu búnaðar og afkastagetu á hverjum tíma og síðan tekur kyndistöðin við.

 

Vegna kostnaðar og umhverfisáhrifa leggja HS Veitur því áherslu á að olíunotkun í kyndistöðinni verði sem allra minnst. Mikilvægt atriði í því sambandi er að bæjarbúar fari eins sparlega með heita vatnið eins og kostur er og hafi í huga að öll sóun á heitu vatni, sérstaklega þegar hún er  framleidd með brennslu olíu, er mjög slæmur kostur. Auðvitað halda íbúar áfram að hita upp húsnæði sitt með eðlilegum hætti, það er bara hugsanleg sóun sem við beinum spjótum okkar að.

 

Við vonum svo að rekstur varmadælustöðvarinnar gangi vel sem er mikilvægt til að minnka olíunotkun og að vatnsbúskapur Landsvirkjunar batni en eins og útlitið er í dag gæti þessi skerðing staðið langt fram í apríl og jafnvel lengur en við vonum að svo fari nú ekki.

 

Júlíus Jónsson forstjóri.

Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs Vestmannaeyjum