Hitaveita

HVAÐ ER MILLIRENNSLI OG HVAÐ ORSAKAR ÞAÐ
Millirennsli er það kallað þegar kalt vatn kemst í heitavatnskerfi húsa eða heitt vatn í kaldavatnskerfi. Millirennsli getur einungis orðið þar sem heitt og kalt vatn er leitt að tæki eins og til dæmis blöndunartæki, sem opnar leið milli heita- og kaldavatnslagna. Sérstaka aðgát skal hafa á hitastýrðum blöndunartækjum, því með tímanum stirðna þau vegna óhreininda, standa á sér og þar með er hætta á millirennsli. Á sama hátt getur orðið millirennsli um samtengda slöngukrana og í þvottavélum, sem taka inn á sig heitt og kalt vatn. Einstefnulokar eiga að vera á ofna- og kranavatnslögnum þar sem þær tengjast hemlagrind Hitaveitunnar. Einnig á að vera einstefnuloki á kaldavatnsstofni. Einstefnulokarnir eiga að sjá til þess að vatn streymi einungis í eina og rétta átt og eiga þar með að koma í veg fyrir millirennsli. Í einstefnulokana geta safnast óhreinindi, þeir slitna með tímanum og því er mikilvægt að yfirfara þá reglulega. Nokkur munur getur verið á þrýstingi hitaveitu og vatnsveitu sá munur er breytilegur eftir stöðum og eftir árstíðum. Við millirennsli rennur vatn frá því kerfi, sem hefur hærri þrýsting til þess kerfis sem hefur lægri þrýsting.
ER Í LAGI AÐ KLÆÐA AF INNTAKSGRINDINA
Það má alls ekki klæða af inntaksgrindina þar sem það getur hindrað eðlilegt aðgengi að henni vegna reglulegs eftirlits.
AF HVERJU HITNAR EINN OFN EN EKKI HINIR
Flestir ofnkranar eru hitastýrðir og sjálfvirkir og þeim verður að halda við. Lokarnir geta einfaldlega staðið á sér af mörgum orsökum til dæmis óhreinindum, sliti og fleiru. Séu hitanemar lokanna birgðir til dæmis með gluggatjöldum þá fá þeir fölsk boð sem lokað geta fyrir streymi til ofnsins.
JAFNVÆGISSTILLING HITAKERFA
Ef hitastýring á að vera nákvæm verður hitakerfið að vera jafnvægisstillt og stýrast af innihita. Jafnvægisstilling felur í sér að hámarksrennsli til hvers ofns er stillt. Þegar kerfi er rétt stillt er nýting á hitaveituvatni í hámarki. Rennsli til ofna er stillt með innri stillingu á ofnloka eða á stillité. Á eldri kerfum getur þurft að endurnýja þennan búnað til að hægt sé að stilla kerfið með góðum árangri. Til að allir ofnar hitni jafnt þarf að stilla rennsli til hvers ofns því vatnið leitar alltaf eftir að fara auðveldustu leiðina og því fá "léttustu" ofnarnir mest vatn og hitna mest en fjarlægu ofnarnir fá minna og þar situr fólk í kulda. Hámarksrennsli til ofnanna er stillt þannig að þeir hiti nægilega við verstu veðurskilyrði.