Öryggis- og heilsustefna

Tilgangur
Tilgangur öryggis- og heilsustefnu HS Veitna er að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem öryggi, vellíðan og heilsa starfsfólks eru í forgrunni. Við vinnum markvisst að því að fyrirbyggja slys og atvinnutengda sjúkdóma og hlítum öllum lögum og reglugerðum sem gilda um öryggis- og heilbrigðismál. Öryggi starfsfólks hefur alltaf forgang – ekkert verk er svo mikilvægt að það réttlæti áhættu fyrir líf eða heilsu.
Ábyrgð og þátttaka
Allir sem starfa fyrir HS Veitur bera ábyrgð á eigin öryggi og taka virkan þátt í að skapa öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Við hvetjum til opinna og heiðarlegra samskipta til að greina, meta og stýra áhættum. Stjórnendur bera ábyrgð á að skapa öruggt vinnuumhverfi og styðja starfsfólk í að stýra áhættu.
Forvarnir og viðbrögð
HS Veitur stofna ekki lífi og heilsu starfsfólks í hættu fyrir fjármuni, tíma eða aðra þætti í starfsemi fyrirtækisins. Verk eru áhættumetin og nauðsynlegar varnir virkjaðar til að fjarlægja óásættanlega áhættu. Við gerum óhikað athugasemdir við óöruggt verklag eða aðstæður og stöðvum vinnu ef öryggi er ekki tryggt. Við greinum öll atvik og notum niðurstöður til að bæta verkferla og þjálfun.
Verkferlar og eftirlit
Fyrirtækið vinnur markvisst að því að:
- Áhættur í hverju verki séu ávallt undir verkstjórn.
- Aðbúnaður á öllum vinnustöðum miði að því að tryggja öryggi og viðhalda góðri heilsu og vellíðan.
- Öll atvik sem snerta öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmál eru tilkynnt og unnið úr þeim í forvarnarskyni.
- Bæta ferla og verklýsingar til að samræma og viðhafa bestu og öruggustu vinnubrögð.
- Efla öryggis- og heilsuvitund starfsfólks og verktaka með upplýsingagjöf og þjálfun.
- Stjórnendur tryggi með úrtakseftirliti og stuðningi á verkstað að unnið sé samkvæmt verkferlum og að áhættum sé stýrt.
Gildi og menning
Vinnubrögð okkar endurspegla öryggi og vellíðan á vinnustaðnum. Fyrirtækjamenning HS Veitna byggir á því að starfsfólk og verktakar séu meðvituð um að heilsa og öryggi þeirra hafi alltaf forgang. Stefna þessi byggir á gildum HS Veitna: Traust, Virðing og Framfarir og er í fullu samræmi við heildarstefnu fyrirtækisins.
Samþykkt af framkvæmdastjórn 19. ágúst 2025