Chat with us, powered by LiveChat
Fara á efnissvæði

Rafmagn kemst á Grindavík síðar í vikunni

Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar Grindavíkur, framkvæmdanefndar vegna málefna Grindavíkur og HS Veitna í dag að fara með tvær stórar rafstöðvar til Grindavíkur. Rafmagn ætti að vera komið á bæinn í lok viku.

rafmagnsstaur.jpg

Framkvæmdanefnd vegna málefna Grindavíkur, HS Veitur og bæjarstjórn Grindavíkur fundaði í dag, mánudag. Verkefni fundarins var að tryggja rafmagn í bænum en það fór af þegar gos hófst í síðustu viku.

 

Enn er rafmagnslaust í Grindavík eftir að loftlína frá Svartsengi til Grindavíkur skemmdist verulega þegar rafmagnsstaurar eyðilögðust vegna glóandi hrauns. 

 

Til að koma rafmagni aftur á Grindavík er ætlunin að leggja varaleið frá Svartsengi til Grindavíkur. Lausnin felst í að nýta fyrirliggjandi strengi HS Orku og HS Veitna á þessari leið og að auki leggja nýjan streng um 4,3 kílómetra niður svokallaðan niðurdælingarveg. Ennfremur þarf að leggja um 900 metra af jarðstreng framhjá nýja hrauninu sem fór yfir Nesveg, í stað þess strengs sem varð þar undir hrauni.

 

Þessi varatenging hefur takmarkaða aflgetu en á að anna þeirri rafmagnsnotkun sem verið hefur í bænum síðustu mánuði. Reiknað er með að verkið hefjist í kvöld og að unnið verði á vöktum næstu sex sólahringa til að klára tenginguna. Á meðan á framkvæmdum stendur verða tvær öflugar varavélar frá Landsneti í notkun á svæðinu til að knýja atvinnulíf í Grindavík þar til rafmagn kemst aftur á bæinn.