Eldgos hófst í Sundhnúkagígum á níunda tímanum í gærkvöld, fimmtudaginn 22. ágúst. Stór sprunga opnaðist og hefur hraun flætt um umfangsmikið svæði.
Neyðarstjórn HS Veitna hefur verið að störfum við að meta stöðuna. Hefur hraunflæði ekki ógnað innviðum fyrirtækisins í námunda við eldgosið enn sem komið er. Áfram er fylgst náið með þróun hraunflæðis á svæðinu í nánu samstarfi við Almannavarnir og verða viðbragðsáætlanir uppfærðar eftir þörfum í takt við það.
Eins og staðan er að morgni föstudags, 23. ágúst, er ekki talin hætta á að innviðir fyrirtækisins verði undir hraunflæði á næstunni.