Umhverfisstefna

Verndun umhverfis og lífríkis er hagsmunamál allra. HS Veitur leggja metnað sinn í að umhverfisvernd verði ávallt höfð til hliðsjónar við stefnumótun og framtíðarþróun fyrirtækisins, rekstur og framkvæmdir. Markmið HS Veitna er að færa heimilum, fyrirtækjum og sveitarfélögum nútímalífsgæði með því að veita aðgengi að tærum og endurnýjanlegum auðlindum frá orkufyrirtækjum.

 

Markvisst skal unnið að umbótum á stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum og starfsháttum, þar sem m.a. er tekið tillit til fenginnar reynslu, tækniþróunar, rannsókna, þarfa viðskiptavinarins og væntinga þjóðfélagsins. HS Veitur stefna af einurð að því að áhrifin af starfsemi fyrirtækisins raski sem minnst eðlilegu ástandi, jafnvægi, samfélagi manna, dýra og gróðurs.
Ávallt skal miðað að því að lágmarka jarðrask og ónæði á meðan á framkvæmd stendur. Að verki loknu skal frágangur vera til fyrirmyndar. Við alla vinnu, framkvæmdir og frágang eftir þær skal gæta þess að umhverfisáhrif verði lágmörkuð eins og kostur er.

 

Í starfsemi HS Veitna skal tekið tillit til hagkvæmrar notkunar aðfanga, endurnýtingar efnis og tækjabúnaðar þar sem það á við auk ábyrgrar förgunar á úrgangi. Vinna skal markvisst að því að draga úr úrgangsmyndun til urðunar og það efni sem til fellur hjá fyrirtækinu er komið í farveg til endurnýtingar og eða vinnslu til stuðnings við hringrásarhagkerfið. Öðrum úrgangi og spilliefnum er komið til móttöku- og söfnunarstöðva sem hafa gild starfsleyfi.

 

Stjórnun áhrifa af starfsemi HS Veitna á umhverfið verður hluti af gæðastjórnun
fyrirtækisins.

 

HS Veitur leggja metnað í að vera öðrum til fyrirmyndar og eftirbreytni í meðferð og umgengni við umhverfið.

 

HS Veitur munu fylgjast með almennri þróun umhverfismála og leitast við í samstarfi við
erlenda og innlenda aðila að sporna við neikvæðum áhrifum á umhverfið.

 

HS Veitur leitast við að beita hverju sinni þeirri tækni sem minnst áhrif hefur á umhverfið,
að teknu tilliti til hagkvæmni.

 

Umhverfisstefnu HS Veitna skal miðlað til starfsmanna og þeir hvattir til að taka virkan þátt í umræðu og þróun fyrirtækisins í umhverfismálum.

HS Veitur leggja metnað í að efla umhverfisvitund starfsmanna og almennings með fræðslu og hvatningu.

 

HS Veitur munu fylgja gildandi lögum og reglum á sviði umhverfismála ásamt því að taka mið af alþjóðlegum stöðlum við stjórnun á áhrifum starfseminnar á umhverfið.

 

HS Veitur kynna verktökum sínum umhverfisstefnu fyrirtækisins og þar sem það á við, krefjast umbóta til samræmis við stefnu fyrirtækisins hjá þeim verktökum sem vinna á vegum og/eða í nafni fyrirtækisins. Jafnframt hvetja HS Veitur verktaka og birgja til að taka upp og sýna fram á ábyrga stefnu í umhverfismálum.

 

HS Veitur munu meta árangur umhverfisstefnunnar með skýrum og mælanlegum markmiðum og miðla upplýsingum til starfsmanna og viðeigandi aðila.

 

Stefnan samþykkt 20.06.2022