Um vatnsveituna

Við dreifum vatni á Suðurnesjum og Vestmannaeyjum.

Við eigum og rekum dreifikerfi fyrir kalt vatn í Reykjanesbæ, hluta Suðurnesjabæjar (Garði) og í Vestmannaeyjum. Að auki sjáum við um rekstur vatnsveitunnar á flugverndarsvæðinu. Önnur sveitarfélög á Suðurnesjum fá afhent kalt vatn frá okkur en reka sín eigin dreifikerfi.

 

Vatnsveita á Suðurnesjum
Aðalvatnstökusvæði okkar er í gjá í hrauninu í Lágum. Ferskt vatn flýtur ofan á jarðsjónum á þessum slóðum. Dælustöðin í Lágum er byggð yfir gjá sem fyllt var af grjóti og möl eftir að komið hafði verið fyrir í henni fimm stálrörum. Þrjár dælur sem hver um sig afkastar 100 lítrum á sekúndu eru í stöðinni. Vatnsþörfin í Reykjanesbæ er 140- 160 lítrar á sekúndu. Með aukinni vatnsþörf er hægt að bæta við dælum en megin stofnæðin er hönnuð fyrir hámarksrennsli uppá 400 lítra á sekúndu. Aðal miðlunarrými veitunnar er í Grænásgeymi, í Keflavík er einnig geymir og annar til vara.

 

Garður fær sitt vatn úr tveimur borholum sem staðsettar eru við Árnarétt og Skálareykjaveg, tveir miðlunartankar eru á kerfinu.

 

Hafnir fá sitt vatn úr tveimur borholum sem eru við þjóðvegin u.þ.b. 0,6 kílómetra austan við byggðina. Saltmagn í þessu vatni er hátt. Til að vinna bót á því er sérstakur búnaður sem síar salt úr neysluvatni, með því er málmtæring minnkuð og vatnið stenst reglugerð um neysluvatn.

 

Íbúar í sveitarfélaginu í Vogum fá sitt vatn úr borholu við Vogavík, unnið er að því að setja upp nýtt vatnstökusvæði fyrir Vogana.

 

Vatnsveita í Vestmannaeyjum
Vatn til Eyja er tekið í landi Syðstu Markar undir Eyjafjöllum. Vatnið er leitt þaðan 22 kílómetra niður í dælustöð þaðan er því dælt til Eyja um tvær 13 kílómetra langar neðansjávarleiðslur yfir í birgðatank sem staðsettur er við Strembugötu. Sjálfrennsli til Eyja um 23 lítrar á sekúndu en ef vatnsnotkun fer yfir það mark fara dælur í gang og fylla tankinn. Fyrri neðansjávarleiðslan var lögð árið 1968 en sú síðari 1971, en fyrir þann tíma var ekkert ferskvatn í Eyjum.

 

Gæði vatnsins og efnainnihald
Mörg lög og reglugerðir eru um vatnsveitur á Íslandi. Ferskvatn flokkast sem matvæli og ber vatnsveitum meðal annars að uppfylla matvælareglugerð og vera með sérstakt innra eftirlit og á þeim forsendum fá þær starfsleyfi.
Eftirlit með gæðum vatnsins er í höndum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, fyrir Suðurnes og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, fyrir Vestamanneyjar. Þessir aðilar sjá um að taka reglulega sýni úr vatni.

 

Efnainnihald vatns á Suðurnesjum

Efnainnihald vatns í Vestmannaeyjum