Mælavæðing

Ein elsta hemlaveita á landinu
Hemlakerfið er einna helst notað í jarðarbyggðum og í sumarhúsabyggð núorðið. HS Veitur hf er því með nokkra sérstöðu í dag sem ein af elstu hemlaveitum á landinu.

 

Af hverju mælar?
Umboðsaðili Danfoss á Íslandi hefur staðfest að framleiðandi AVD hemlanna, sem veitan hefur notast við frá upphafi, sé að hætta framleiðslu þeirra. Þetta var tilkynnt fyrir þó nokkrum árum síðan. Frá árunum 2004 – 2008 var gerð tilraun með AVQ hemla, einnig frá Danfoss. Þeir hafa reynst illa, óáreiðanlegir og bilanatíðni há með tilheyrandi óþægindum fyrir viðskiptavini. Því er næsti kostur fyrir HS Veitur hf að fara í sölukerfi með rennslismælum. Þá hafa raddir viðskiptavina okkar orðið háværari síðustu misseri um að kaupa vatn samkvæmt mælingu.

 

Að skipta út hemlum á Suðurnesjum
Það mun taka tvö til þrjú ár að setja upp mæla í stað hemla á Suðurnesjum. Hugsanlegt er að ekki verði skipt á jaðarsvæðum þar sem er yfirrennslis stilling hemla vegna hitastigsins á vatninu sem afhent er. Starfsmenn HS Veitna munu annast mælauppsetninguna og hafa yfirumsjón með þeim.

 

Gerð mælana
Mælarnir sem verða settir upp er frá Landis+Gyr af gerðinni T550, sjá nánar inn á www.landisgyr.dk. Mælarnir eru með fjaraflestursbúnaði og því verður ekki þörf á að áætla notkun viðskiptavina. Upplýsingar um notkun viðskiptavina fer beint inn í orkureikningakerfi fyrirtækisins og mögulegt er að uppfæra upplýsingarnar á hverjum sólarhring.

 

Hefur þetta í för með sér hækkun á verði?
Þessi breyting á ekki að hafa í för með sér neina hækkun, verðskrá er ekki að hækka. Við verðlagningu á hitaveituvatni með hemlafyrirkomulagi er reiknað með 67,8% nýtingu á hámarksrennsli. Þeir viðskiptavinir sem hafa verið að nýta mögulegt rennsli í gegnum hemil 67,8% eða minna eiga að koma vel út kostnaðarlega séð við þessar breytingar. Þeir sem hafa nýtt mögulegt rennsli í gegnum hemil meira en 67,8% gætu komið til með að hækka ef þeir breyta ekki notkun sinni með einhverjum hætti.

 

Hvað þýðir 67,8% nýting á mögulegu hámarksrennsli hemlastillingar
Viðskiptavinur sem er með hemlastillinguna 2 l/m sem gerir 120 lítra á klukkustund eða 2.880 lítra á sólarhring mun geta notað 86.400 lítra á mánuði að hámarki miðað við 100% rennsli sem gerir um 86,4 rúmmetra vatns. Fyrir þessi mögulegu not hafa HS Veitur reikningsfært miðað við 67,8% meðalnýtingu eða fyrir 58,5 rúmmetra. Þar sem rennsli í gegnum mælana er ekki takmarkað með hemlun er nauðsynlegt að húsráðendur skoði notkun sína á heitu vatni og yfirfari hitakerfi sín til að koma í veg fyrir óþarfa notkun á heita vatninu. Bent er á þann möguleika að láta pípulagningarmenn yfirfara búnað og ganga úr skugga um að hitakerfi séu jafnvægisstillt til að tryggja sparnað og eðlilegan rekstur.