Hollráð um heitt vatn

Íslensk heimili nota árlega að meðaltali 4-5 tonn af heitu vatni á hvern m2 húsnæðis. Um 90% af notkuninni eru vegna húshitunar og afganginn notum við til annarra hluta eins og að fara í bað eða sturtu, þrífa heimilið og vaska upp. Til að minnka heitavatnsnotkunina og lækka orkureikninginn liggur því beinast við að skoða vel hvernig við nýtum heita vatnið sem best til húshitunar.

 

Kynningabækling um hitamenningu er hægt að nálgast hér.

 

BAÐKÖR OG HEITIR POTTAR
Láttu renna úr heitavatnskrananum um stund til að vatnið nái fullum hita. Aldrei láta renna í bað eða heita potta án þess að fylgjast stöðugt með hitastiginu. Bað með of heitu vatni er slysagildra. Varast ber að láta heita vatnið renna fyrst og ætla sér svo að kæla niður með köldu vatni heldur blanda það strax.
HEITAVATNSKRANINN
Láttu renna úr heitavatnskrananum um stund til að vatnið nái fullum hita. Heita vatnið kólnar ef ekkert rennsli er í rörum og því lítið að marka hita þess fyrstu 2 til 4 mínútur eftir að skrúfað hefur verið frá.
SKÚRINGAR
Aðgát skal sýna við skúringar, fötur með heitu vatni eru í hættulegri hæð fyrir lítil börn og til eru dæmi um börn sem hafa stigið í skúringarfötur eða velt þeim yfir sig og brennst illa.
HEITAR LAGNIR EÐA OFNAR
Sérstök varkárni er nauðsynleg ef lagnir og ofnar eru með því móti að börn nái að grípa um þá, til dæmis til að reisa sig upp.
HITINN Á VATNINU
Hafa verður í huga að vatnið sem er notað til hitunar húsa á Íslandi er oftast afar heitt, miklu heitara en til dæmis húshitunarvatn erlendis. Algengur hiti er 70 til 80 gráður.
HITASKYNJUN
Látið heitt vatn ALDREI komast í snertingu við húð án þess að kanna hitastigið fyrst. Húð barna er viðkvæmari en húð fullorðinna. Hið sama gildir um eldra fólk, því með aldrinum þynnist húðin. Þessir hópar ásamt nokkrum hópum fatlaðra einstaklinga eru í sérstökum áhættuhópi vegna þess að viðbragðsflýtir þeirra er mun minni en hjá heilbrigðum, fullorðnum einstaklingum.
BRUNASLYS
Brunaslys af völdum heita vatnsins geta haft víðtækari afleiðingar en brunasárið og örið sem það skilur eftir sig, einkum þegar um börn er að ræða. Sársauki vegna húðbruna getur verið gríðarlega mikill.
FYRSTU VIÐBRÖGÐ VIÐ BRUNA
Fyrstu viðbrögð við bruna. Kælið þar til sviði er horfinn - Notið 15 til 20° heitt vatn. Ekki láta renna beint á sárið heldur hafið brennda svæðið á kafi í vatni eða vefjið það með handklæði sem bleytt er með köldu vatni reglulega. Kælið aldrei skemur en í 10 mínútur. Ef blöðrur eða sár myndast á húð, ef brunasár nær allan hringinn á útlim eða ef bruni er í andliti, á hálsi, liðamótum eða við kynfæri skal hringja tafarlaust á lækni.