Vígsla varmadælustöðvar í Vestmannaeyjum

Miðvikudaginn 29. maí fór fram formleg vígsla varmadælustöðvar í Vestamannaeyjum. Stöðin er staðsett á Hlíðarvegi 4.
Iðnaðarráðherra, Þórdís kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Ívar Atlason, svæðisstjóri vatnssviðs í Vestmannaeyjum opnuðu stöðina með formlegum hætti.

Varmadælustöðin er 10,4 MW og er gert ráð fyrir að hún anni um 80% af orkuþörf hitaveitunnar en 20%, sem samsvarar hámarksálagi mánuðina nóv. – feb., komi frá kyndistöðinni. Orkunotkun kyndistöðvarinnar hefur verið 80 – 85 GWst síðustu árin en gert ráð fyrir að heildar orkunotkun verði innan við 30 GWst þegar öllum framkvæmdum verður lokið. Mismunurinn er sóttur í Atlantshafið með varmadælum. Það er þessi rösklega 50 GWst orkusparnaður sem á að gera verkefnið hagkvæmt því notkun hitaveituvatns og þá tekjur aukast ekki. Þessar 50 GWSt koma þá inn á almennan markað raforku og er varmadælustöðin þannig séð að okkar mati ódýrasti virkjunarkostur raforku um þessar mundir !

Þetta hefur verið mjög flókið og margþætt verkefni. Bora þurfti sjóholur til að sækja 550 l/sek eða um 2.000 m3 á klukkustund af 5 - 12°C heitum sjó þar sem meðalhitinn er 8°C. Byggja þurfti tæplega 900 m2 hús, kaupa allan búnað, setja hann upp og tengja. Tengja þurfti kyndistöðina við varmadælustöðina því hlutverk varmadælustöðvarinnar er að taka á móti um 35°C heitu bakrásarvatni frá kyndistöðinni og hita í u.þ.b. 77°C. Loks þurfti að leggja lögn frá varmadælustöðinni út fyrir Eiði til að losna við þetta mikla magn af sjó sem nýttur er í varmadælustöðinni.

Kostnaður við verkefnið er um 1.800 m.kr. en af því voru 300 m.kr. fjármagnaðar með styrk úr ríkissjóði.

Fyrirtækið þakkar öllum sem komið hafa að verkinu kærlega fyrir samstarfið.