Rafmagnsveita

VAL UM RAFORKUSALA?
Sala raforkunnar er sá hluti raforkuviðskiptanna sem neytendur hafa val um við hvaða fyrirtæki þeir skipta, óháð búsetu, og ber neytanda að velja sér raforkusala. Eftir að notandi hefur tilkynnt eða staðfest flutning í húsnæði á dreifiveitusvæði HS Veitna hf þarf hann einnig að hafa samband við þann raforkusala sem hann kýs að eiga viðskipti við og viðkomandi orkusali sér þá um að koma á raforkuviðskiptum fyrir viðkomandi húsnæði. Einnig getur notandi ákveðið að skipta um raforkusala kjósi þeir að gera slíkt og er það gert með sambærilegum hætti og við flutning, haft samband við þann raforkusala sem hann kýs að hafa viðskipti sín við og raforkusalinn sér um skiptin. HS Veitur hf hafa engin hagsmunatengsl við neinn raforkusala og er óheimilt að hafa aðkomu að vali notenda á raforkusala meðal annars með því að gefa upp kjör einstakra raforkusala. Til að stofna til viðskipta við raforkusala þarf notandi raforkunnar að hafa samband við viðkomandi símleiðis, með tölvupósti eða senda inn tilkynningu á heimasíðu raforkusala. Á síðunni Aurbjörg má finna frekari upplýsingar varðandi val á raforkusala, meðal annars er þar að finna samanburð á raforkuverði.
HVAÐ ER AÐALTAFLA?
Til að taka á móti raforku þarf rafmagnstöflu sem nefnist aðaltafla. Aðaltaflan er hjarta rafkerfis í húsi. Aðaltaflan er oft eina taflan í minni einbýlis- og raðhúsum. Í stærri húsum eru oftast einnig undirtöflur sem kallast greinitöflur og fá tengingu frá aðaltöflu. Hver rafmagnsheimtaug frá HS Veitum verður að tengjast einni aðaltöflu. Krafa HS Veitna um búnað í aðaltöflu er að aðalvarrofi (í eldri töflum geta aðalvar og aðalrofi verið í tvennu lagi) og pláss sé fyrir orkumæli eða orkumæla sé um fleiri notendur að ræða. Taflan sjálf og búnaður í henni þarf að uppfylla ákvæði reglugerða um raforkuvirki.
HVAÐ ERU SPARPERUR?
Sparperur eru flúrperur sem passa í perustæði fyrir venjulegar glóperur og eru með nauðsynlegan rafbúnað innbyggðan. Sparperur gefa álíka mikið ljós og glóperur sem nota fjórum til fimm sinnum meira rafmagn. Vandaðar sparperur eiga að endast í meira en 8.000 klukkustundir og þola að minnsta kosti 20.000 kveikingar. Til samanburðar má geta þess að árið er 8.760 klukkustundir. Sparperur eru hins vegar enn sem komið er talsvert dýrari en venjulegar perur.
HVAÐ ER KÍLÓVATTSTUND?
Kílóvattstund er mælieining fyrir orku. Orka er margfeldi af afli og tíma. Aflið er mælt í kílóvöttum (1000 vött er 1 kílóvatt), en tíminn er mældur í klukkustundum. Afl tækja er skráð á kenniskjöld tækis, eða merkiplötu þess. Þar er aflið gefið upp í kílóvöttum (kW) eða í vöttum (W). Ef afl er gefið upp í vöttum þarf að deila með 1000 til að finna hversu mörg kílóvött tækið tekur. Athugið að rugla kílóvöttum ekki saman við kílóvattstundir. Kílóvattstundir verða fyrst til þegar tækið er í gangi í einhvern tíma. Til að finna hversu mikla orku tækið tekur þarf að margfalda afl þess í kílóvöttum með þeim klukkustundum sem það er í gangi.
HVAÐ ER ÓTRYGGT RAFMAGN?
Raforka sem seld er samkvæmt sérstökum samningi milli raforkusala og orkukaupanda og samningurinn síðan staðfestur af Landsvirkjun. Helstu skilmálar samningsins eru meðal annars þeir að uppsett afl sé að minnsta kosti 100kW og árleg notkun 500.000.kWh að lágmarki. Einnig að kaupandi uni skerðingu og að verðlagning rafmagnsins taki mið af vatnsbúskap Landsvirkjunar og líklegri skerðingu. Ótryggt í þessu sambandi merkir að Landsvirkjun ábyrgist ekki afhendingu en á ekkert skylt við öryggi eða öryggismál almennt.